Framkvæmdir að komast á fullt 2021

Sumarið er klárlega komið og vonandi til að vera. Framkvæmdir við lagningu ljósleiðara eru komnar á fullt á Akureyri og erum við hjá Tengir með metnaðarfull markmið fyrir sumarið. Þá munum við einnig stefna að frekari ljósleiðaravæðingu á Vopnafirði og Siglufirði í sumar, ásamt ýmsum spennandi verkefnum víða um norðausturland.

Búið er að hafa samband við stóran hluta íbúa þeirra fasteigna sem stefnt er að því að leggja ljósleiðara Tengis að í sumar, en þegar framkvæmdir verða komnar vel af stað og einhverjum áföngum lokið má vel vera að framkvæmdasvæðin muni teygja anga sína til enn fleiri notenda.

Sölufulltrúar hafa í upphafi samband við íbúa til að upplýsa þá um framkvæmdina og kanna áhuga þeirra á að fá ljósleiðaratengingu. Þeir sem óska eftir að fá ljósleiðaratengingu, fá í kjölfarið heimsókn frá rafvirkja sem ákveður í samráði við húseigendur og verkstjóra, hvar hentugast er að ljósleiðarinn sé tekinn inn í húsið. Þegar jarðvinnuframkvæmdir hefjast mætir framkvæmdadeildin á svæðið, oft fríður flokkur fólks og vel tækjum búinn. Þá er rör fyrir ljósleiðara lagt að hverju húsi með þeirri aðferð sem hentar best hverju sinni. Rörin verða sett upp að húsvegg þar til ljósleiðarastreng hefur verið blásið í rörið. Þá er jarðvinnu að mestu lokið og í kjölfarið bókuð heimsókn til viðskiptavina þar sem rörið er borað inn í hús. Þetta fyrirkomulag ætlum við að prófa núna í sumar, m.a. til að fækka heimsóknum inn til viðskiptavina.

Þá hefst í tengivinna ljósleiðarans, þ.e. tenging heimtaugarinnar við stofnstreng. Ljósþráður viðskiptavinar er þá tengdur alla leið að tengistað Tengis. Sú vinna getur tekið nokkrar vikur í stórum verkum, en að því loknu er ljósleiðarinn tilbúinn til virkjunar inni á heimili. 

Viðskiptavinir geta pantað uppfærslu á ljósleiðara til sinnar þjónustuveitu (Hringdu/Hringiðan/Nova/Síminn/Vodafone) og þegar beiðni berst til okkar - og um leið og ljósleiðarinn er tilbúinn til notkunar, bóka tæknimenn tíma hjá viðskiptavinum og ganga frá inntaksboxi fyrir ljósleiðarann á sama tíma og þeir virkja hann og setja upp ljósbreytu og annan búnað fyrir viðskiptavin.

Endilega verið í sambandi við okkur ef einhverjar spurningar vakna! 

 

 

27.5.2021